Jackie Chan var við tökur á myndinni The Forbidden Kingdom þegar gömul bakeymsli gerðu vart við sig. Orsök meiðslanna virðist vera atriði þar sem Jackie þurfti að henda aðila upp á við. Kappinn er hins vegar svo harður af sér að hann kláraði út vinnudaginn en þegar hann ætlaði á fætur næsta morgun gat hann sig ómögulega hreyft.
Jackie er núna á batavegi og lítur svo á að þetta séu bara enn ein meiðslin til að sigrast á. Fyrir nokkrum árum sagði hann í viðtali að hann finni yfirleitt fyrir sársauka í hnjám, öxlum og um mittið þegar hann vaknar á morgnana.
Tökum á myndinni fer að ljúka bráðum, en þetta er í fyrsta sinn sem hann leikur með Jet Li. Hún kemur út í Bandaríkjunum næsta vor og er um ævintýralega för bandarísks unglings til Kína þar sem hann ætlar sér að bjarga goðsögulegum apakóngi.

