Gamanmál, ræður og Cyrus á opnun RIFF í gær

Kvikmyndir.is mætti að sjálfsögðu á opnunarhátíð RIFF í gær í Þjóðleikhúsinu. Kynnir á opnuninni var grínistinn Ari Eldjárn sem reytti af sér brandarana og salurinn lá í hláturskasti. Meðal þess sem Ari sagði frá var kvikmynd sem hann gerði þegar hann var 12 ára gamall – Morðinginn. Einn daginn kom kvikmyndaleikstjórinn Hrafn Gunnlaugsson í heimsókn og Ari sagði honum að hann hefði verið að búa til kvikmynd. Hrafn spurði hvort hann mætti ekki kíkja á og gefa komment, sem hann og gerði. Þegar þeir hittust næst var Hrafn ekki á eitt sáttur með stílbrögð kvikmyndageðrarmannsins unga, og setti m.a. út á notkun leikstjórans á Zúmmi. Einnig væri ótrúverðugt að börn væru að leika í glæpamenn í glæpamynd, auk þess sem menn lifnuðu gjarnan við eftir að hafa verið drepnir.

Ari sagði, í gamni auðvitað, að þessi gagnrýni hefði reynst honum mjög uppbyggileg og góð. Einnig stakk Ari upp á því í sínu atriði að Íslendingar færu að talsetja kvikmyndir í meira mæli, og láta þá jafnvel einn leikara talsetja heila kvikmynd og tala þá fyrir alla leikara. Til dæmis mætti Jakob Frímann Magnússon talsetja sem mest af myndum, enda talaði hann ávallt eins og hann væri að spila fimbulfamb.

Á opnunarhátíðinni kom borgarstjórinn, leikarinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og grínistinn með meiru, Jón Gnarr fram og hélt ræðu, og tók þar m.a. undir gagnrýni Þóris Snæs Sigurjónssonar kvikmyndaframleiðanda á stefnu RÚV varðandi innkaup á efni frá íslenskum kvikmyndagerðarmönnum, en Þórir sá um Gusuna þetta árið, en árlega er einn aðili fenginn til að ausa úr skálum reiði sinnar á opnunarhátíðinni.

Hrönn Marinósdóttir stjórnandi hátíðarinnar hélt einnig ræðu og rakti sögu hátíðarinnar og þakkaði öllum sem lagt hafa hönd á plóg.

Að loknum ræðuhöldum var hin stórgóða kvikmynd Cyrus sýnd, og þar á eftir var partí í Þjóðleikhúskjallaranum.

Nú er bara að drífa sig í bíó og reyna að sjá sem flestar af þeim 140 myndum sem eru í boði.

Við hjá kvikmyndir.is höfum skráð flestar myndirnar í okkar gagnagrunn þannig að notendur geta skrifað komment og umfjallanir um myndirnar að vild, og auk þess munum við fjalla um valdar myndir og segja fréttir meðan á hátíðinni stendur.

Jón Gnarr borgarstjóri talar við setningu RIFF í gærkvöldi.