Tvær nýjar umfjallanir um Óróa

Tvær nýjar umfjallanir eru komnar hér á kvikmyndir.is um íslensku kvikmyndina Órói sem kvikmyndir.is forsýndi í síðustu viku. Myndin hefur verið að fá góða dóma í fjölmiðlum og svo er einnig í þeim dómum sem komnir eru fram hér á síðunni.

Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is gefur myndinni 8 stjörnur af tíu mögulegum, og segir að hér sé komin unglingamynd sem „fattar“ unglinga. „Það er svo hressandi að sjá loks klakaframleidda mynd sem almennilega nær að tala sama tungumál og unglingar gera, og þá án þess að virka tilgerðarleg eða kjánaleg á meðan. Það eru í mesta lagi tvær til þrjár senur sem virðast vera einum of æfðar eða ónáttúrulegar, en fleiri eru þær ekki. Annars er blákalda raunsæið það sem ræður öllu og vefst það hér utan um sögu sem er ekki aðeins (óvenju) kröftug á tímapunkti heldur líka fyndin og með sálina á sínum stað allan tímann…“ segir Tómas meðal annars.

Sæunn Gísladóttir, einn af öflugri gagnrýnendum meðal notenda kvikmyndir.is, segir í sinni umfjöllun að hér sé um nýjung að ræða. „Órói er nýjung í íslenskri kvikmyndagerð hún er raunsæ unglingamynd en þannig myndir eru sjaldséðar á Íslandi.“ segir Sæunn meðal annars.

Umfjallanir um aðrar myndir, gamlar og nýjar, bætast reglulega inn á síðuna, og til dæmis heldur Jónas Hauksson áfram yfirferð sinni um teiknimyndir Disney og skrifaði núna síðast um Dumbo. „Það er ótrúlegt að horfa á byrjunina og endinn á Dumbo því þetta er næstum því öfugt við allt það sem gerist í miðjunni á myndinni. Það er ekki hægt annað en að líða aðeins illa yfir þessari mynd.“ segir Jónas m.a. í umfjöllun sinni.

Þá eru komnar nýlega umfjallanir um hina þrælgóðu Ben Affleck mynd The Town

Þá er skrifar Bryndís Inga Þorsteinsdóttir sína fyrstu umfjöllun og bjóðum við hana velkomna á síðuna. Hún skrifar umfjöllun um Sex and the City, og er ekki allskostar sátt, og gefur myndinni tvær stjörnur af tíu mögulegum. „Eftir að hafa séð myndina byrjaði ég að hugsa: afhverju þessi söguþráður? Eftir brúðkaupið gerist margt eins og barneignir. Carrie hefði getað orðið ólétt! Það er bara dæmi um óteljandi sögur eftir brúðkaupið sem hefði getað verið í myndinni,“ segir Bryndís m.a. í umfjöllun sinni.