Heimildarmyndin Eins og við værum eftir Ragnheiði Gestsdóttur var frumsýnd í Bíó Paradís í gær, að viðstöddu fjölmenni.
Sýning myndarinnar tók um hálftíma og eftir sýningu komu leikstjórinn og þeir Ragnar Kjartansson myndlistarmaður og fyrirsæta hans Páll Haukur upp á svið, og svöruðu spurningum. Eftir það var boðið í feneyskan Spritz kokkteil í bíóinu og fólk ræddi myndina fram og til baka.
Í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar segir um myndina: „“Eins og við værum“ fjallar um listmálara og módelið hans. Þeir eru staddir í fagurri en sökkvandi borg. Á vinnustofunni blasir við sama verkefni dag eftir dag, að málarinn máli mynd af manninum. Þegar eitt málverk er tilbúið hefjast þeir handa við næsta. Verkin hrannast upp í kringum þá, tíminn líður og borgin heldur áfram að sökkva. Endurtekningin og umhverfið hafa æ meiri áhrif og einangrun, innilokunarkennd og vænisýki láta á sér kræla. Í borg sem er líkust því að vera leiksvið fellur móða á þau mörk sem áður voru skír. Hvað er líf og hvað er list? Félagarnir muna ekki lengur af hverju þeir hófu þessa vegferð eða hvort – og þá hvenær – henni muni ljúka. Af hvorum þeirra er sú mynd sem verður til á degi hverjum?
Eins og við værum er tilraunakennd heimildarmynd um verk Ragnars Kjartanssonar, Endalokin, sem hann sýndi á Feneyjatvíæringnum 2009. Ragnar og fyrirsætan Páll Haukur Björnsson dvöldu í Feneyjum í hálft ár og máluðu þar eitt málverk á dag fyrir stöðugum straumi gesta.



