Sænski kvikmyndaleikarinn Dolph Lundgren, sem lék sællar minningar í The Expendables sl. sumar ásamt Sylvester Stallone og fleiri töffurum, hefur skrifað undir samning um að leika í myndinni In The Name of the King 2.
Leikarinn mun leika aðalhlutverkið í myndinni sem leikstýrt er af hinum umtalaða þýska leikstjóra Uwe Boll.
Lundgren mun leika fyrrum hermann sem fer aftur í tímann til að berjast við sverðasveiflandi þorpara.
Lundgren sagði í samtali við blogtalk útvarpið: „Ég mun leika miðaldra fyrrum hermann sem lendir í einhverju rugli, en sogast aftur í tímann í einhversskonar miðaldaátök. Þetta er hlutverk sem mig langaði að leika. Það er gaman að fá krefjandi hlutverk af og til, og láta reyna á leiklistarhæfileikana. Ég verð líka að halda mér í formi fyrir Expendables 2.“
Leikstjórinn Uwe Boll segir um söguþráðinn, sem gerist í konungsríkinu Ehb. „Þetta er eins og nútíma stórborg, og við erum með Dolph Lundgren sem löggu eða bardagastjóra, og eina nóttina ráðast á hann ninja stríðsmenn á heimili hans, og hann sogast aftur í tímann með þeim. Þá kemur í ljós að þeir eru komnir um 50 árum aftar í tímann en þegar fyrri myndin, In the Name of the King, endaði, og Ehb hefur verið gjöreytt, og allir eru dauðir. Jason Statham og aðrir sem voru í fyrstu myndinni, eru steindauðir.“
Boll segir að Lundgren hafi í raun verið sendur inn í framtíðina. „Hann er sonur Jason Statham, sendur inn í framtíðina, og alinn upp á munaðarleysingjahæli, því foreldrarnir héldu að þau myndu öll deyja. Þannig að tæknilega séð þá er hann eini eftirlifandinn úr konungsríkinu Ehb, þannig að hann þarf að snúa aftur til að taka þar við stjórnartaumunum.“
Tökur á In the Name of the King 2 eiga að byrja snemma á næsta ári í Kanada.