Getraun: Despicable Me (DVD)

Dispicable Me/Aulinn Ég er án efa ein af steiktari, litríkari en um leið sætari teiknimyndum sem hefur sést undanfarna mánuði. Myndin fékk góða dóma og hátt í 30 þúsund manna aðsókn á Íslandi (enda bauð ræman upp á svakalega skemmtilega þrívídd þegar hún var í sýningum). Hún kemur í verslanir í dag og við ætlum að sjálfsögðu að spreða nokkrum eintökum af henni á notendur okkar, enda er mikið jólaskap okkar megin og þar að auki finnst okkur alltaf sjálfsagður hlutur að leggja áherslu á góða efnið sem finnst þarna úti. Líka fínt að breyta til frá hasartitlum eins og Expendables og bjóða allri famelíunni upp á eitthvað líka.

Söguþráður:

Innan um hvítmáluð grindverk, vel snyrta garða og reisuleg úthverfahús leynist eitt, svart hús dauðum gróðri í kring. Þar býr hinn óyndislegi Gru en það sem nágrannarnir vita ekki er að undir húsinu hans er risastór leynihellir. Þar stjórnar Gru heilum her af skósveinum og hyggur á heimsyfirráð með því að stela tunglinu! Já, Gru hefur unun af illknyttum og notar allskonar tækniundur til að fá sínu framgengt, minnkunar-geisla, frost-geisla og hernaðarökutæki sem enginn getur stöðvað. Nema kannski þrjár litlar, munaðarlausar stúlkur sem sjá nokkuð í Gru sem enginn annar sér, föðurímynd. Með helstu raddir fara þau Steve Carrell, Jason Segel, Will Arnett, Russell Brand og Kristen Wiig.

Í stað þess að láta trailer fylgja með þá sýni ég ykkur í staðinn örfáar klippur úr myndinni sem segja betur til um hvernig tónn og húmor hennar er.

Þið ættuð að þekkja þetta núna. Til þess að eiga séns á eintaki verðið þið að svara eftirfarandi spurningum og senda mér síðan póst á tommi@kvikmyndir.is. Leikurinn verður í gangi fram að fimmtideginum. Dregið verður út þá.

Hérna eru spurningarnar:

1. Hver talar fyrir Gru í íslensku útgáfunni?

2. Hver talar fyrir persónuna Dr. Nefario og hvaða annarri mynd lék hann aðalhlutverkið í sem kom út fyrr á þessu ári?

3. Hvenær var myndin frumsýnd í bíó á Íslandi?

Gangi ykkur vel.

Eitt svona lítið að lokum:

Næsta getraun: Scott Pilgrim !