Gamanmyndin Little Fockers hélt toppsætinu í Bandaríkjunum um helgina, en myndin var sú mest sótta í bandarískum bíóhúsum nú yfir áramótin. Myndin þénaði 26,4 milljónir Bandaríkjadala um helgina, en fast á hæla hennar kom endurgerður vestri Cohen bræðra True Grit með 24,5 milljónir. Tron Legacy kom þar skammt á eftir með 18,3 milljónir dala. Myndirnar, sem allar eru framhaldsmyndir eða endurgerðir, héldu allar sömu sætum og helgina á undan.
Í bíóhúsum utan Bandaríkjanna, þ.e. í Evrópu, Asíu osfrv. , var það tröllið Gulliver sem tröllreið bíóhúsum, og var mest sótta myndin nú yfir áramótahelgina. Myndin náði ekki sama árangri í Bandaríkjunum. Myndin Gulliver´s Travel er þrívíddarmynd byggð á sögu Jonathan Swift og þénaði 24 milljónir Bandaríkjadala á 33 svæðum utan Bandaríkjanna, þar á meðal í Bretlandi, þar sem komu 10,9 milljónir dala í kassann. Alls hafa komið 47 milljónir dala í kassann, þar af 27 í Bandaríkjunum og Kanada.
Næstar á eftir Gulliver utan Bandaríkjanna urðu Tron: Legacy og Little Fockers.