Heat Vision segir frá því á vef sínum að leikstjórinn Christopher Nolan sé nú búinn að fækka leikkonum sem koma til greina í tvö helstu kvenhlutverk í næstu Batman mynd, The Dark Knight Rises, niður í sex. Þær eru nú samkvæmt miðlinum; Keira Kneightley, Anne Hathaway, Jessica Biel, Kate Mara, Charlotte Riley og Gemma Arterton.
Leikkonurnar ku eiga að mæta í prufur hjá Warner Bros. einhverntímann á næstu tveimur vikum.
Heat Vision vill þó meina að Arterton sé ólíkleg, þar sem hún sé nýbúin að ráða sig í aðalhlutverkið í Hans og Grétu: Nornaveiðarar ( Hansel and Gretel: Withch Hunters ) og þetta tvennt gæti rekist á.
Heat segir að Nolan þurfi að ráða einn kvenþorpara, og eina konu sem léki ástkonu Batman.
Samkvæmt vefsíðunni er annað kvenhlutverkið Talia, dóttir Ra’s al Ghul, sem Liam Neeson lék í fyrstu myndinnni. Til gamans má geta þess að Charlotte Riley er trúlofuð Tom Hardy, sem leikur hlutverk í myndinni.
Heat Vision segir að upptökur byrji líklega í maí nk. og fari fram í London og Los Angeles. Myndin verður svo frumsýnd þann 20. júlí 2012.