Leikkonan Mila Kunis hefur ákveðið að skella sér upp á gamlan kúst og fljúga inn í ævintýralandið Oz, en hún skrifaði á dögunum undir samning um að leika í myndinni Oz, the Great and Powerful, sem Sam Raimi mun leikstýra.
Það er sjálfur Óskarsverðlaunakynnirinn og leikarinn James Franco sem mun leika aðalkarlhlutverkið heillandi svikahrapp og sjónhverfingamann sem stingur af úr Sirkus þegar ástarævintýri fer út um þúfur. Hann reynir að flýja í loftbelg en fellibylur hrífur hann með sér alla leið til Oz, þar sem hann uppgötvar að galdrar eru raunverulegir og athafnir hans hafa jafnvel meiri afleiðingar en venjulega.
Persóna Francos mun hitta galdranornirnar Thodora, sem Kunis leikur, og systur hennar Glinda, sem hafa þangað til amk. verið í góða liðinu. En þegar galdrakarlinn í Oz hafnar Theodoru, þá slæst hún í lið með illu norninni Evanoru, sem ætlar að ná yfirráðum yfir landinu.
Sam Raimi er nú eftir langt undirbúningsferli að verða tilbúinn að takast á við þetta verkefni, en handritið skrifar David Lindsay-Abaire. Raimi leitar nú dyrum og dyngjum að leikkonum í hlutverk hinna nornanna en Variety kvikmyndatímaritið segir að þær Olivia Wilde, Amy Adams, Kate Beckinsale, Keira Knightley og Rebecca Hall hafi allar verið þar undir smásjánni.
Í Oz munu Kunis og Franco hittast aftur en þau léku síðast glæpapar í Date Night.

