Jamie Bell talar um Tinna!


Spennan magnast fyrir nýjustu mynd Peter Jackson, Tinna, en þar fer Jamie Bell með titilhlutverkið. Fyrstu viðtöl við Jamie birtust fyrir skömmu, en hér má sjá þýðingu á einu þeirra:

Hvernig fékkstu hlutverkið, þurftiru að berjast fyrir því eða fékkstu það upp í hendurnar?
–Hugmyndin að Tinna myndunum hefur verið á lofti í mörg mörg ár. Á tímabili vildu þeir gera leikna útgáfu af myndinni. Svo fóru Steven Spielberg og Peter Jackson að ræða það að vinna verkefni saman og útfrá því kom upp hugmyndin að gera þetta með „motion capture“ tækninni. Ég held að það sé eina leiðin til að kvikmynda teiknimyndasögur af þessarri gerð. Þannig getum við verið trú upprunalega útlitinu á Tinna, sem fyrir mér allavega, er ein aðalástæða vinsælda saganna og því að þakka að sögurnar hafa lifað tímans tönn. Rammarnir sjálfir eru svo lifandi og kvikmyndalegir í raun, upprunalegu bækurnar eftir Hergé eru ótrúlegar.
Þannig að já, ég fór og hitti Peter Jackson í Nýja Sjálandi, ég hef unnið með honum áður í King Kong þannig að við þekkjumst ágætlega, og við lékum okkur bara með tæknina. Ég vildi sjá hvort ég gæti notað mér hana, því að hún krefst allt öðruvísi hluta af manni, öðruvísi hugsunarháttar, öðruvísi leiks.


Virðiru þá Andy Serkis meira núna? (sem lék Gollum í Lord of the Rings)
–Algjörlega! Það er ótrúlegt að fá að vinna með honum í einhverju þar sem hann er algjörlega á heimavelli, hvað varðar alla tækni. Hann er gúrúinn, hann er Gandálfur „motion-capture“ tækninnar. Þannig að það er stórkostlegt að fá að vinna með honum og sjá hann endurtaka leikinn. Ég man eftir honum á tökustað King Kong, þar sem hann einfaldlega varð þetta skrímsli, hann hætti alveg að vera Andy. Ekki ólíkt því þegar hann leikur Kolbein Kaptein.

Þú kláraðir tökur fyrir allnokkru, hvernig hefur það verið fyrir þig að bíða eftir að sjá útkomuna?
–Við tókum upp allskonar tökur. Þegar hlutirnir eru teknir upp með „motion-capture“ þá er svo auðvelt að breyta hlutunum eftir á, þú stimplar bara eitthvað inn í tölvu og allur heimurinn birtist þér á ný, þannig að mikið af leiknum kemur saman í eftirvinnslunni. „Motion-capture“ er alræmd fyrir að krefjast mjög langs eftirvinnslutímabils. Þannig að já, það er rétt, mig klæjar í puttana að fá að sjá eitthvað. En ég hef fengið að sjá myndir af því hvernig persónurnar líta út og heimurinn, og það lítur allt mjög vel út. Þetta verður mjög spennandi hasaraævintýri held ég með frábærum persónum og ég held að fólk verði mjög ánægt. Fyrir þá sem ekki þekkja söguna þá þekkja þeir hvernig myndir Steven Spielberg gerir og hvernig myndir Peter Jackson gerir. Til að mynda fyrir fólk sem er hrifið af Indiana Jones, þá er þetta eins og mjög fersk útgáfa af því og eins og þar þá er aðalpersónan vel ígrunduð og þekkt.

Það koma margir flottir leikarar að myndinni, líkt og Nick Frost og Simon Pegg. Fékkstu að vinna með þeim eða tókstu mest upp einn?
–Við lékum þetta eins og hverja aðra kvikmynd. Allir leikararnir léku senurnar saman. Þetta var ekki ólíkt því að æfa leikrit, sem á aldrei að fara á svið. Þannig hugsaði ég þetta allavega. Manni líður ekki eins og maður sé á tökustað heldur er maður bara í einhverju gráu herbergi með fullt af myndavélum út um allt. Manni líður frekar eins og maður sé í einhverju æfingarými. Sem er frábært því það leyfir manni að vera frjálslegri en venjulega og prófa allskonar hluti. En já, við vorum öll þarna í búningunum okkar með nemunum og myndavélunum föstum á okkur og það var ógeðslega gaman. Þetta snýst náttúrulega um að leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala.

Upprunalega áttu myndirnar um Tinna að vera þrjár. Nú er Peter Jackson að gera Hobbitann. Veistu eitthvað hvernig framhaldið verður með seríuna?
–Peter er að sjálsögðu mjög upptekinn við Hobbitann og við vitum öll hverskonar skuldbinding það er og hvers er krafist af honum til að sú mynd klárist. Þannig að ég held að ætlunin sé að leyfa honum bara að klára það og svo getum við hafist handa við að gera Tinna 2. Það er ennþá heillangt þangað til að fyrsta Tinnamyndin kemur út og maður veit aldrei hvað gerist þangað til.

Sjá má viðtalið í heild sinni hér:

-Kolbrún Björt Sigfúsdóttir