Einhverjir gætu mögulega hafa tekið eftir því að nú um helgina var lokamyndin um galdradrenginn Harry Potter og svaðilfarir hans, Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2, frumsýnd á heimsvísu með pompi og prakt.
Nú eru aðsóknartölur að berast frá Bandaríkjunum og samkvæmt Box Office Mojo gerði myndin sér lítið fyrir og slátraði gamla frumsýningarmeti Batman-myndarinnar The Dark Knight. Harry náði að galdra fram áætlaðar 168,5 milljónir dollara, en met The Dark Knight frá 2008 er 158 milljónir. Þar spiluðu miðnætursýningar á fimmtudagskvöldinu ekki lítið hlutverk, þar sem yfir 43 milljónir dollara komu í kassann þá.
Þetta eru miklu hærri tölur en fyrri sjö myndirnar um Harry hafa náð á sínum opnunarhelgum, en þær voru á milli 77 (The Order of the Phoenix) og 125 milljónir dollara (The Deathly Hallows: Part 1). Það er því einnig nokkuð ljóst að heildaraðsóknin í Bandaríkjunum á eftir að fara vel yfir þær 317 milljónir sem fyrsta myndin, The Sorcerer’s Stone, tók inn á sínum tíma, því auk þessarar metaðsóknar er myndin að fá betri dóma en nokkur önnur mynd í seríunni, sem boðar gott fyrir framtíðaraðsókn næstu vikur og mánuði.
Og ekki nóg með það, heldur sló myndin líka met á heimsvísu með því að taka inn 307 milljónir utan Bandaríkjanna frá miðvikudeginum, sem er næstum 50 milljónum meira en gamli methafinn, POTC: On Stranger Tides náði í vor.
Á morgun koma tölur frá Íslandi, og eitthvað segir okkur að aðsóknin hér um helgina sé heldur ekkert slor.
-Erlingur Grétar

