Eins og við höfum greint frá hér á síðunni þá er Arnold Schwarzenegger aftur á leið í bíómyndirnar, en næsta mynd hans heitir Last Stand. AP fréttastofan greinir frá því að tökur á myndinni hefjist í Belen, í Nýju Mexíkó í október nk.
Myndin er nútíma vestri um sakamenn sem eru að reyna að komast til Mexíkó yfir landamærin í Nýju Mexíkó, eftir að þeir sleppa úr fangelsi í Las Vegas.
Yfirmaður tökustaða, Paul Roberts, segir að lokið verði við að ráða leikara í myndina í september.
Last Stand er fyrsta stóra kvikmyndahlutverkið sem Arnold tekur að sér síðan hann lék í Terminator 3: Rise of the Machines. Hann kom fram í gestahlutverki í The Expendables sumarið 2010.
Schwarzenegger sagði í maí sl. að hann hefði frestað öllum leikverkefnum ótímabundið, eftir að í ljós kom að hann hafði eignast barn utan hjónabands með ráðskonu á heimili hans, en í kjölfarið skildu hann og eiginkona hans Maria Shriver.