RoboCop endurgerðin lítur út fyrir að vera nær því að komast í gang, en Darren Aronofsky var td. einn þeirra sem ætlaði í smá stund að gera myndina. Nú þegar fjárhagsvandræði MGM eru að baki, og stúdíóið ætlar fyrst og fremst að einbeita sér að endurgerðum og framhöldum á þeim myndum sem það á í katalógnum ætti leiðin að vera greið. Líkt og Róbert greindi frá fyrir stuttu verður leikstjóri José Padilha, sem á að baki brasílisku myndina Tropa de Elite og ætlar hann ekki að gera beina endurgerð á mynd Verhoevens heldur finna það sem honum finnst áhugavert um söguna.
Í öðru viðtali sem hann veitti nýlega gaf hann upp hvern hann óskar sér til að leika Véllögguna: Michael Fassbender. Þetta er enn sem komið er bara „fantasy casting“ hjá leikstjóranum en honum hlýtur að vera alvara fyrst hann er að nefna það í viðtali. Spurningin er hinsvegar hvort að Michael Fassbender langi til að leika RoboCop, því eftir rómaðar frammistöður í Inglourious Basterds og X-Men: First Class, og með A Dangerous Method eftir David Cronenberg og Prometheus eftir Ridley Scott á leiðinni, getur hann væntanlega valið sér þau verkefni sem hann vill. En við getum velt vöngum á meðan, væri Fassbender góður í RoboCop?