Áttræður api Tarzans fallinn frá

Cheetah, simpansi sem lék í Tarzan myndum fjórða áratugarins á móti Johny Weismuller og Maureen O’Sullivan dó nú á aðfangadagskvöld úr nýrnabilun. Hann lést á heimili sínu í prímataskýli í Flórída, þar sem hann hafði búið eftir að hann dró sig til hlés úr skemmtanaiðnaðinum. Hann var orðinn 80 ára gamall, sem er tvöfalt hærri aldur en simpansar geta almennt búist við að ná.

Cheetah lék í myndum á borð við Tarzan The Ape Man (1932) og Tarzan And His Mate (1934), og var þó aðeins einn nokkura apa sem fóru með hlutverk persónunnar Cheetah. Hann þótti þó bera af, gat staðið uppréttur og gefið frá sér hljóð eftir merkjum. Hann hafði búið á heimilinu frá því á sjöunda áratugnum. Reyndar eru uppi efasemdir um réttmæti þessara fullyrðinga og eru einhverjir sem halda því fram að fortíð apans hafi í besta falli verið óljós, og þjálfari hans hafi búið til söguna um hann til þess að hagnast. Það breytir þó ekki því að út kom „sjálfsævisaga“ hans árið 2008, þar sem farið var yfir ferilinn, og heimsmetabók Guinnes viðurkenndi hans sem heimsins elsta (ómennska) prímata. Kveðjum hefur ringt yfir apaheimilið eftir að tilkynnt var um andlátið, þar sem fólk þakkar honum fyrir ævistarfið.