Ef hlutirnir virka einu sinni þá er nánast bókað að það verði gerð framhaldsmynd, ég tala nú ekki um ef það er teiknimynd. Nú er í framleiðslu framhaldið af Despicable Me sem kom út árið 2010 og var með þeim Steve Carrell og Jason Segel í aðalhlutverkum. Framhaldið ber það frumlega nafn Despicable Me 2 og mun Steve Carrell áfram ljá hinum hræðilega vonda kalli Gru rödd sína ásamt því að nýr óvinur lítur dagsins ljós, og er það enginn annar en Al Pacino sem talar fyrir hann!
Pacino tekur við af Javier Bardem sem átti upphaflega að leika óvininn El Macho en enn er óvíst hvort hann muni einfaldlega taka við þeirri persónu eða hvort einhverjar breytingar verði gerðar. En þar sem myndin er áætluð á næsta ári þykir ekki líklegt að pláss sé fyrir miklar breytingar.
Persónulega er ég algjör sökker fyrir teiknimyndum, ég vil meina að þær séu ekki aðeins ætlaðar börnum, og mér fannst Despicable Me bráðfyndin („It’s so fluffy!!“). Bætum Al Pacino inn í dæmið (sem er eitthvað svo súrrealískt) og við fáum vonandi að sjá einhverja snilld.