Nú hefur fengist staðfest að ný kvikmynd um Zorro sé í bígerð sem mun vera reboot á sögunni um grímuklædda skylmingakappann sem hefur fengið nafnið Zorro Reborn og er áætluð árið 2014. Handritið skrifaði Glenn Gers ásamt Lee Shipman og Brian McGreevy og mun þessi mynd ekki gerast í Californíu eða Mexíkó eins og í sögunum, heldur í framtíðinni sem verður að teljast skringilegt en hugsanleg ástæða þess gæti verið að koma myndinni eins langt og mögulegt er frá síðustu mynd um kappann, The Legend of Zorro frá árinu 2005. Ekki er ljóst hversu langt inní framtíðina verið er að tala, hvort sem það er þá líðandi stund eða nokkrar aldir fram í tímann en þó er ljóst að breytingar verða á persónunni þar sem Zorro verður hér einhvers konar andhetja, hulinklæddur uppreisnamaður í hefndarhug.
Sá sem mun taka við keflinu af Antonio Banderas og verða næsti Zorro er mexíkóski sjarmörinn og Íslandsvinurinn Gael García Bernal (Amores Perros, Motorcycle Diaries) sem verður að teljast nokkuð áhugavert val þar sem hann hefur hingað til ekki viljað fara Hollywood leiðina og sem hálfgert andlit hinnar Suður Amerísku nýbylgju hefur hann í gegnum tíðina frekar viljað taka þátt í ódýrari kvikmyndum sem vekja athygli á landi hans og heimsálfu. Það verður spennandi að sjá hvort honum hafi snúist hugur varðandi Hollywood eða hvort þetta hlutverk sé einstakt frávik.