Ég veit ekki alveg hversu spenntir menn eru fyrir nýjustu Superman-endurræsingunni, Man of Steel, sem verður ein stærsta mynd sumarsins á næsta ári. Margir eru á móti því að Zack Snyder sé að leikstýra þessu (og sumir hafa ekki enn jafnað sig eftir Sucker Punch) og hingað til hefur David Goyer skrifað fleiri slæm handrit heldur en góð, en hins vegar er Christopher Nolan að framleiða og þar að auki er erfitt að laðast ekki pínulítið að epíska leikhópnum. Með helstu hlutverk fara m.a. þau Henry Cavill (sem lék aðalkarakterinn í Immortals), Amy Adams, Russell Crowe, Kevin Costner, Laurence Fishburne, Michael Shannon og Diane Lane.
Eins og kom fram er enn rúmt ár í myndina og þess vegna hefur lítið sést úr henni annað en nokkrar stillur og myndir af setti. Hins vegar getur fólk séð núna hvernig klassíska Superman-merkið lítur út í þessari útgáfu af Ofurmenninu, og svona til samanburðar sjáið þið fyrir neðan lógóið úr Superman Returns frá 2006.
Hvort finnst ykkur flottara og hvers vegna??