Bond fær sér Heineken, ekki martini

Næsta Bond myndin, Skyfall, er væntanleg í kvikmyndahús seinna á þessu ári og bíð ég allavega fáranlega spenntur eftir henni. Síðan að Daniel Craig kom í seríuna í Casino Royale hafa litlar breytingar verið gerðar á myndunum í hvert skipti sem ný Bond mynd kemur út. Það virðist ætla halda áfram og nú hefur eitt af einkennismerkjum Bond verið fjarlægt, vegna peninga.

Þetta mun byrja með Skyfall auglýsinu þar sem Bond ákveður að hella einum Heineken ofan í sig. Auglýsingin er svo aðeins byrjunin þar sem Heineken bjórinn mun svo færa sig yfir í myndina og taka við af klassíska Martini sem Bond lét alltaf hrista fyrir sig. Lítið vit í því að biðja um hristan Heineken býst ég við.

„James Bond er fullkominn fyrir okkur“ segir Lesya Lysjy aðal-markaðsstjóri Heineken. „Hann er ímynd hins fullkomna karls“ bætir hún svo við.

Hvernig fer þetta í ykkur? Fyrst er „shaken, not stirred“ fjarlægt, svo fáum við ekki að heyra „Bond, James Bond“ og núna fær kallinn ekki einu sinni að drekka Martini. Stefnir þetta allt hægt og rólega út í algjöra vitleysu?