Við erum öll forvitin eða jafnvel spennt að sjá Spider-Man, en flest ykkar sem sækja í þessa síðu eruð bara með eina júlí-mynd á heilanum, og það er sú mynd sem hefur mest látið í sér heyra ef við ræðum aðeins auglýsingarnar. Þar erum við að tala um herflota af gómsætum plakötum, helling af grípandi stillum, fullt af kætandi tilkynningum og nokkrum brjálæðislega flottum sýnishornum, og tvennt af þessu síðastnefnda kemur hér beint fljúgandi í áttina að manni eftir sólríka helgi til að koma manni í enn betra skap.
Christopher Nolan mætti með sínu liði á MTV kvikmyndaverðlaunin í gær, þar sem hann afhjúpaði nýtt sýnishorn með miklu stolti.
Hér sjáið þið það:
Í öðrum fréttum hefur AMC bíókeðjan í Bandaríkjunum tilkynnt tvennt nýtt sem kemur Batman- og Nolan-unnendum í betra skap; fyrst og fremst að bíóið ætli að byrja að selja miða í næstu viku á hið ómótstæðilega „Dark Knight maraþon“ sem haldið verður degi fyrir frumsýningu vestanhafs. Þar verða allar þrjár myndirnar sýndar, og eru það cirka 8-9 tímar af góðri gleði.
En talandi um einmitt þessa lengd, þá koma það einnig í ljós í þessum fréttum frá kvikmyndahúsunum að heildarlengd þriðju og síðustu myndarinnar í þessum þríleik verði 2 klukkutímar og 45 mínútur. Svona cirka korteri lengri heldur en forveri sinn, og einnig lengsta Batman-myndin sem gerð hefur verið. Og sú lengsta frá leikstjóranum.
Já, verði okkur að góðu.
Myndin verður frumsýnd þann 20. júlí í Bandaríkjunum en viku seinna hér heima. Lækið þessa frétt ef þið eruð örlítið spenntari í dag en í gær.