Eftir að kvikmyndin Dragonball: Evolution olli aðdáendum, gagnrýnendum og fjármögnurum stjarnfræðilegum vonbrigðum hefur áhugi á nýrri Dragonball-kvikmynd ekki verið upp á marga fiska í Hollywoodlandi, og hafa þar með aðdáendurnir sjálfir ákveðið að tækla efnið.
Sjálfstæða framleiðslufyrirtækið K&K Productions hóf fyrr á þessu ári söfnun fyrir verkefni þeirra um að gera leikið og vandað Dragonball Z myndefni að veruleika og eru nú komnir góða leið með vinnsluna.
Þar sem heil kvikmynd byggð á þáttunum/myndasögunum yrði of dýr fyrir svona lítinn framleiðsluhóp er stefnan eins og hún stendur að gera sirka 5 mínútna langa stiklu fyrir Saiyan Saga söguörkina.
Framleiðendurnir og leikararnir eru flest allir aðdáendur þáttanna og þau hafa unnið strangt að því að ná útliti þáttanna rétt og eru leikarnir ekki aðeins líkir persónum sínum heldur einnig lærðir í bardagalistum.
Verkefnið hefur verið fjármagnað af framlagi aðdáenda í gegnum Indiegogo og hafa framleiðendurnir lofað að færa aðdáendunum gæðin sem serían verðskuldar. Reglulega eru gefin út myndbönd um framleiðsluferlið og samkvæmt nýjasta myndbandinu er verkefnið á góðri leið og eftirvinnslan að hluta til byrjuð.
Hægt er að fyljast nánar með verkefninu á vefsíðu K&K Productions, youtube síðunni, og að sjálfsögðu á fésbókinni. Þó að þeir séu einungis að framleiða stiklu er aldrei að vita nema þetta kveiki í áhuga stærri framleiðanda.
En þá er komið að heyra hvað þið lesendurnir hafið að segja um þetta verkefni. Áhugavert eða bara aðdáendarúnk? Hversu mörg ykkar sáu Dragonball: Evolution og ef svo er hvað fannst ykkur?