Í ljósi þess að Cloverfield hefur gjörsamlega sprengt öll aðsóknarmet vestanhafs síðustu 2 vikur þá hafa sögusagnir um framhald orðið hærri og meiri með hverjum deginum. Í viðtali við Den of Geek segir leikstjóri Cloverfield, Matt Reeves að skrímslið í myndinni hafi bara verið nýfætt barn!
Fyrir þá sem hafa séð myndina þá kann þetta að hljóma ósennilega, en þetta rennir verulega stoðum undir það að rosalegt framhald sé á leiðinni og að það skrímsli verði óhugnalegra en nokkru sinni fyrr!
„Leyndarmálið er að skrímslið í myndinni er í rauninni nýfætt barn. Hugmyndin er sú að móðirin hafi fætt skrímslið og það hafi komið í heiminn og lent á Manhattan. Upp frá því hefur það ekki hugmynd um hvar það er og er hrætt vegna þess að allir eru að skjóta á það.“ sagði Matt Reeves.

