Í miðvikudagsblaði Vatikansins í Róm, L’Osservatore Romano, eru tvær stórar afmælisgreinar. Önnur fjallar um að liðin eru 500 ár frá vígslu Sistínsku kapellunnar, eftir Michalangelo, en Júlíus Páfi II vígði hana 31. október 1512. Hin greinin fjallar um önnur merk tímamót, 50 ára afmæli James Bond myndanna.
Það er svo sem ekkert nýtt að fjallað sé um Sistínsku kapelluna í blaði Vatikansins, en mun sjaldgæfara að fjallað sé um skáldsagnarpersónur með leyfi til að drepa, eins og James Bond.
Giovanni Maria Vian, aðalritstjóri blaðsins, segir í frétt í the New York Times, að það að heiðra Bond með þessum hætti, þá sé blaðið að viðurkenna þátt persónunnar í dægurmenningu samtímans, enda sé það „stefna blaðsins að fjalla um helstu menningarfyrirbæri okkar tíma“, hvort sem það eru brandarar, popptónlist eða kvikmyndir.
Á síðustu árum hefur blaðið fjallað m.a. um the Blues Brothers og plötu Bítlanna, White Album.
„Bond er kannski tilbúin persóna, en hann er einn af góðu gæjunum,“sagði Vian. „Hann er heillandi, gerir grín að sjálfum sér, og heilt yfir þá er hann meira mannlegur en hitt.“