Frumsýning – Shadow Dancer

Græna ljósið, sem sérhæfir sig í dreifingu á óháðum gæðakvikmyndum frá öllum heimshornum, frumsýnir á fimmtudaginn 8. nóvember nk. í Bíó Paradís myndina Shadow Dancer eftir James March, en hann hefur áður gert myndirnar Project Nim og Man on Wire.

 

Í tilkynningu frá Græna ljósinu segir að hér sé á ferðinni þriller af bestu gerð sem fengið hafi frábæra dóma gagnrýnenda.

Myndin fjallar um Collette sem er meðlimur í írska lýðveldishernum, IRA, og tekur þátt í misheppnaðri sprengjutilraun í London. Mac, fulltrúi hjá leyniþjónustunni MI5, tekur hana höndum og gerir henni tilboð. Hún gerist annaðhvort uppljóstrari eða fari í fangelsi. Collette er umhugað um velferð sonar síns og samþykkir að svíkja hugsjónir sínar og fjölskyldu með því að gerast njósnari fyrir MI5. Smám saman aukast grunsemdir um Collette hjá félögum hennar. Þau Mac verða að grípa til róttækra ráðstafana til að vernda leyndarmál hennar um leið og hringurinn þrengist stöðugt.