Verður Skarsgard Tarzan?

Leikarinn Alexander Skarsgard, úr sjónvarpsþáttunum True Blood, er núna orðinn efstur á óskalista Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins fyrir hlutverk Tarzans, en fyrirtækið hyggst gera nýja mynd um þessa frægu söguhetju úr bókum Edgar Rice Burroughs, eins og kvikmyndir.is greindi frá á dögunum.

Kvikmyndatímaritið Variety segir að samningaviðræður standi yfir, en enginn samningur hafi verið undirritaður ennþá. Samkvæmt blaðinu vilja menn þó ráða í hlutverkið sem fyrst, enda eiga tökur að hefjast næsta sumar.

Sagan í myndinni á að gerast eftir að Tarzan er kominn úr skóginum og til siðmenningarinnar. Hann fær boð um það frá  Viktoríu drottningu að rannsaka mál í Kongó í Afríku. Tarzan tekur verkefnið að sér og fer til Kongó með fyrrum trúboða að nafni George Washington Williams, en þeir eiga að  bjarga Kongó úr höndum stríðsherra sem stjórnar risastórri demantanámu.
Samuel L.  Jackson hefur verið orðaður við hlutverk Williams.

Leikstjóri verður David Yates, sem leikstýrði fjórum síðustu Harry Potter myndunum.