Unnendur glæpasagna kannast eflaust flestir við sænsku skáldkonuna Lizu Marklund, en nú um helgina var frumsýnd ný kvikmynd sem byggð er á sögu hennar Nobels Testamente, eða Arfi Nóbels eins og hún heitir á íslensku.
Myndin fjallar eins og aðrar bækur Marklund, um Anniku Bengtzon sem er blaðamaður á sænska dagblaðinu Kvällspressen í Stokkhólmi. Hún skrifar aðallega um glæpamál en tekur líka að sér önnur verkefni þegar svo ber undir. Arfur Nóbels fjallar um það þegar Annika þiggur kvöld eitt boð um að mæta til hátíðarfagnaðar í tilefni af nýjustu Nóbelsverðlaunaafhendingunni. Bæði henni og gestum samkvæmisins er mikið brugðið þegar skotárás er gerð í salnum og liggur ein manneskja í valnum og önnur særist. Þar sem Annika varð sjálf vitni að árásinni er henni bannað að skrifa um málið en grunar strax að málið sé flóknara en það sýnist. Líklegt þykir að í raun hafi árásin átt að beinast að þeim sem særðist en sá sem lét lífið hefði í raun dáið fyrir mistök. Annika hefur aðra skoðun á málinu og eftir því sem hún kryfur málið því betur áttar hún sig á því að líf hennar sjálfrar er í hættu …
Anna Ragnhildur Ingólfsdóttir veit manna mest um Lizu Marklund á Íslandi, en bæði þekkir hún hana persónulega, auk þess sem hún kynnti Lizu og sögur hennar upphaflega til leiks hér á landi fyrir 10 árum síðan. Anna hefur þýtt allar bækur Marklund, tíu talsins, og hefur gefið sjálf út nokkrar þeirra.
Anna Ragnhildur Ingólfsdóttir þýðandi, Anne-Marie Skarp framkvæmdastjóri Pirat forlagsins (sem Liza stofnaði og á með öðrum) og Liza Marklund
Anna segir í samtali við kvikmyndir.is að bíómyndin eftir Arfi Nóbels sé flott gerð. „Þetta er flott gerð mynd. Hún er hröð, og spennu – og morðþætti bókarinnar eru gerð mjög góð skil sem og þeim mannlega. Persónurnar passa líka við það sem ég var búin að gera mér í hugarlund fyrirfram,“ segir Anna, en hún segist t.d. alltaf hafa séð aðalpersónuna Anniku fyrir sér ljóshærða og eiginmann hennar dökkhærðan, þó svo að það sé akkúrat öfugt í bókunum. „Þeir gera eins og ég í bíómyndinni, snúa þessu við. Aukapersónurnar eru líka góðar.“
Áhersla á dulið ofbeldi
Fyrr á þessu ári kom út á íslensku bókin Krossgötur sem er nýjasta bók Lizu Marklund. „Ég kláraði að þýða Krossgötur nú í vor. Það er síðasta bókin hennar, og sú langbesta að mínum dómi. Núna er ég búin að ná henni [ Lizu ] og bíð eftir að hún skrifi næstu bók,“ segir Anna.
Hún segir að það sem einkenni sögur Lizu Marklund sé áhersla á dulið ofbeldi – ofbeldi sem ekki má tala um, eins og heimilisofbeldi, fjármálaofbeldi, andlegt ofbeldi o.s.frv., auk þess sem veruleiki kvenna er mjög áberandi. „Bækurnar fjalla yfirleitt um valdabaráttu, völd, misbeitingu valds og dulið ofbeldi. Manni léttir alltaf eftir hverja bók sem maður les, því manni finnst svo gott að hún segi það sem hún segir. Hún lætur manni finnast eins og maður sé ekki sá eini sem sé að lenda í erfiðum hlutum. Hún kennir manni að standa með sjálfum sér og hugsa að ef það er eitthvað t.d. hjá hinu opinbera sem maður skilur ekki, þá eru örugglega margir aðrir sem skilja það ekki heldur.“
Sjáðu stikluna fyrir Nobels Testamente hér fyrir neðan:
Mannvinur sem fær oft harða gagnrýni
Anna segir að Liza sé beinskeyttur höfundur, og skrifi beint inn í hjartað á manni. Hún sé mannvinur, og sinni enn óvægnum pistlaskrifum fyrir dagblöð, enda var hún sjálf blaðamaður eins og aðalpersóna bóka hennar, Annika. „Hún er mannvinur, en hefur oft fengið hrikalega gagnrýni og útreið, af því að hún fjallar um svo viðkvæm mál. Fólk sem beitir valdi vill ekkert endilega láta fjalla um sig.“
Anna segir að bækur Lisu veki gjarnan umræðu, og oft hafi hún kynnt til sögunnar málefni hér á landi sem ekki hafi verið mikið í umræðunni fyrirfram. Sem dæmi nefnir hún nektardans á Íslandi, sem menn fóru að tala meira um í kjölfar útgáfu á bók Lizu Marklund; Stúdíó Sex. „Hún talar þar um þetta ofbeldi í kringum súludansinn og kúgunina sem viðgengst. Ég man að það var nýbúið að tala um að það væri allt í lagi með súludans hér á landi þegar bókin kom út. Svo opnaðist umræða um hvað var að gerast þarna í raun og veru.“
Startaði norrænu bylgjunni
Anna segist telja að nýja norræna glæpasagnabylgjan hér á landi hafi byrjað með innkomu hennar á markaðinn með bókum Lizu Marklund, fyrir tíu árum síðan. Hún segir að á þeim tíma hafi menn almennt ekki talið vænlegt að gefa út norrænar glæpasögur, haldið sig við Henning Mankell, en Halldór Guðmundsson (þá í Eddu útgáfu) hafi þó kveikt á Lizu á sínum tíma og gefið út í bókaklúbbnum. „Ég tel mig því hafa startað þessari norrænu bylgju dálítið með Lizu og síðar Camillu Läckberg, sem ég hef líka þýtt bækur eftir. Ég var meira að segja búin að fá réttinn af bókum Stieg Larsson en lét réttinn yfir til Bjarts. Síðan tóku Uppheimar sig til við að gefa út bækur eftir fleiri norræna höfunda þegar ég var búin að selja þeim útgáfuréttinn af Lizu Marklund og Camillu Läckberg.“
Allt í allt hefur Anna þýtt átján bækur, 10 eftir Lizu Marklund eins og fyrr sagði en einnig bækur eftir Johan Theorin og Camillu Läckberg. „Þetta hafa verið tvær bækur á ári í tíu ár,“ segir Anna að lokum.
Arfur Nóbels er sýnd þessa dagana í Háskólabíói og Bíó paradís.