Kínverjar klippa Bond

Kínversk yfirvöld hafa klippt út atriði og samtöl, og endurskrifað texta ( subtitles ), í Bond myndinni Skyfall, sem er orðin metsölumynd um allan heim með um einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur. Þetta er gert svo myndin verði hæf til sýninga í Kína.

Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter hafa embættismenn til dæmis klippt út atriði þar sem franskur leigumorðingi, leikinn af Ola Rapace, skýtur kínverskan öryggisvörð í anddyri háhýsis, þegar hann er að undirbúa morð.

Textum myndarinnar hefur einnig verið breytt í atriði þar sem kvendjöfull myndarinnar, sem leikinn er af Bérénice Marlohe, talar um að hún sé meðlimur vændishrings í Macau. Eftir breytinguna þá er hún í slagtogi með mafíunni.

Klippingar Kínverja ættu ekki að koma á óvart, því þar í landi geta vestrænar myndir átt von á slíkri meðferð ef efnið þykir óviðeigandi. Meira að segja lenti Titanic í klippiskærunum, ( eða nánar tiltekið brjóstin á Kate Winslet ) á síðasta ári.

Annað dæmi er Men in Black 3, en myndin þótti aðeins sýningarhæf eftir að senur  voru klipptar úr myndinni sem sýndu geimverur sem voru grímuklæddar sem kínverskir starfsmenn veitingahúss í New York. Einnig var sena fjarlægð þar sem persóna Will Smith eyðir út minningum kínverskra vegfarenda.