Fyrr í vetur sögðum við frá netsöfnun sem þá stóð yfir en safna átti fyrir gerð nýrrar íslenskrar ráðgátu- og hryllingsmyndar, Ruins.
Söfnunin fór fram á síðunni ruinsthemovie.com og í kvöld kl. 22 á að frumsýna kitlu úr myndinni á þessari sömu vefsíðu, þ.e. ruinsthemovie.com
Leikstjóri myndarinnar, Vilius Petrikas, sagði í stuttu spjalli við kvikmyndir.is að enn sem komið er hefðu litlir peningar safnast í netsöfnuninni, en haldið verði áfram að safna fé í febrúar.
Myndin hlaut styrk frá Evrópu unga fólksins, og segir Petrikas að ákveðið hefði verið að gera kitluna til að geta notað hana sem verkfæri til að fjármagna myndina frekar, en hún eigi að sanna staðfestu aðstandenda í því að þeir ætli sér að klára myndina.
Kostnaðaráætlun fyrir gerð myndarinnar hljóðar upp á 32 milljónir króna.
Petrikas segir að handritið sé að verða tilbúið og stefnt sé á að hefja tökur í enda vorsins.
Frá tökum á kitlunni fyrir Ruins
Í myndinni leika meðal annars, Magnús Ólafsson (sem leikur í kitlunni), Rúnar Freyr Gíslason, Vanessa Andrea Terrazas og Katla Rut Pétursdóttir.
Ruins fjallar um fornleifa- og guðfræðinginn Dr. Malphas sem leitar að hinu svokallaða hliði helvítis á Íslandi. Hann ferðast til Vestfjarða ásamt tíu manna hópi fólks sem vill komast í burtu frá stressinu í borginni. Smám saman byrja skrítnir hlutir að gerast sem hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.