Ef fyrsta Iron Man myndin hefði floppað árið 2008, er óvíst hvort að menn hefðu haldið áfram og búið til allar þær myndir eftir Marvel teiknimyndasögum sem gerðar hafa verið síðan þá.
Iron Man, sem leikstýrt var af Jon Favreau, sló í gegn og þénaði 585 milljónir dala um allan heim í bíó, sem varð til þess að menn fylltust bjartsýni, þrátt fyrir að Incredible Hulk hafi floppað þar á undan, og héldu ótrauðir áfram að gera myndir eftir ofurhetjusögum. Þessi ferill náði síðan ákveðnu hámarki í gerð myndarinnar The Avengers, sem er í dag þriðja tekjuhæsta mynd allra tíma.
Iron Man var því forsenda fyrir því að við fengum að sjá myndir um Thor og Captain America, sem dæmi.
Nú segir Variety kvikmyndablaðið frá því í grein um framtíð Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins, að fyrirtækið vilji bíða og sjá hvernig nýju Superman myndinni, Man of Steel reiði af í bíó, ( Superman er ættaður úr heimi DC Comics teiknimyndafyrirtækisins ) áður en lokaákvörðun verður tekin um gerð myndarinnar Justice League. Í Justice League koma nokkrar teiknimyndahetjur DC Comics saman í einni mynd, líkt og þegar Marvel hetjur komu saman í The Avengers.
Sem stendur er kvikmyndaverið þó að vinna eftir Justice League handriti sem Will Beall, handritshöfundur Gangster Squad skrifaði, þó að myndin sé ekki enn komin með leikstjóra.
Það er sem sagt undir bíógestum sjálfum komið hvort þeir komi til með að sjá Justice League kvikmynd í framtíðinni eða ekki, en til að svo megi verða verða þeir að fjölmenna á Man of Steel í bíó í sumar.


