Leikstjórinn Robert Rodriguez heldur áfram að hlaða inn gæðaleikurum í mynd sína Sin City A Dame To Kill for. Nú hefur hann tilkynnt að gamli refurinn Stacy Keach, sem vann síðast með Rodriguez í myndinni Machete, muni leika mafíuforingjann Wallenquist, sem er lýst sem aðal illmenni myndarinnar, og eina manninum sem ekki er hægt að frelsa í Sin City.
Í Variety kvikmyndablaðinu þá lýsir Rodriguez Wallenquist sem „hreinræktaðri illsku“.
Keach er kominn í góðan hóp leikara í Sin City 2. Bruce Willis, Mickey Rourke, Jessica Alba, Michael Madsen, Rosario Dawson og Jamie King snúa öll aftur til leiks ásamt nýliðunum sem eru ekki af verri endanum; Joseph Gordon-Levitt, Josh Brolin, Ray Liotta, Christopher Meloni, Jeremy Piven, Dennis Haysbert, Julia Garner og Juno Temple.
Keach er eftirsóttur sem leikari nú um stundir. Hann mun einnig leika stórt hlutverk í næstu mynd Alexander Payne, hinni svart-hvítu Nebraska, en síðasta mynd Payne var Óskarsverðlaunamyndin The Descendants.
Sin City: A Dame to Kill for kemur í bíó í Bandaríkjunum 4. október á þessu ári.