Leikstjórinn Ben Lewin vakti athygli á nýafstaðinni Sundance kvikmyndahátíð með mynd sinni The Sessions, en hún er byggð á lífi og skrifum Mark O’Brien, og fjallar um mann með gervilunga sem vill missa sveindóminn. The Sessions er einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik Helen Hunt í hlutverki konu sem býðst til að hjálpa aðalpersónunni að missa sveindóminn ( sjá stiklu úr The Sessions neðst í fréttinni).
Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter þá verður næsta mynd Lewin með Katherine Heigl í aðalhlutverkinu, og heitir A Moment To Remember.
Myndin er byggð á japanskri sjónvarpsseríu sem kallast Pure Soul. Heigl mun leika fatahönnuð sem fær sjúkdóm sem þurrkar út allar minningar hennar, sem neyðir eiginmann hennar í örvæntingu til að gefa henni amk. eina minningu um ást þeirra.
Nú þegar er búið að gera bíómynd eftir þáttunum í Kóreu og á tímabili ætlaði CBS sjónvarpsstöðin að gera enska endurgerð af þeirri mynd. Þær áætlanir urðu ekki að veruleika.
Áður en Lewin gerði The Sessions, þá hafði hann ekki komið nálægt kvikmyndaiðnaðinum í mörg ár, en síðasta mynd hans var rómantíska gamanmyndin frá 1994, Paparback Romance.
Ekki segir í fréttinni hvort að Lewin ætli sér sjálfur að skrifa handrit myndarinnar, en það má teljast líklegt þar sem hann hefur hingað til skrifað sjálfur handrit allra mynda sem hann hefur leikstýrt
Framleiðsla á A Moment To Remember mun hefjast í vor.
Næsta mynd Katherine Heigl verður The Big Wedding sem verður frumsýnd í apríl nk.
Hér að neðan er stikla úr The Sessions, síðustu mynd Ben Lewin.