Um daginn birtum við fyrstu myndina úr nýjustu mynd Lars von Trier, Nymphomaniac, sem þýðir sjúklega vergjörn kona. Þar lá persóna leikkonunnar Charlotte Gainsbourg slösuð í húsasundi, en brátt var von á persónu Stellan Skarsgård til að hjálpa henni og fara með hana heim til sín.
Sjá þá mynd hér fyrir neðan:
Nú hefur verið birt ný ljósmynd úr bíómyndinni en þar er aðalsöguhetjan með tveimur karlmönnum og ekki er ólíklegt að kynlíf sé næst á dagskrá hjá þrenningunni.
Nymphomaniac sagan er á þessa leið: Miðaldra kynlífssjúklingur segir eldri piparsveini alla kynlífssögu sína, eftir að hann finnur hana barða og illa á sig komna í húsasundi. Myndin er villt og ljóðræn saga af erótískri vegferð konu, frá fæðingu og þar til hún er orðin 50 ára gömul. Konan, Joe, sem hefur sjálf greint sig sem sjúklega vergjarna, segir sögu sína í myndinni.
Á köldu vetrarkvöldi þá kemur gamall og heillandi piparsveinn, Seligman, sem leikinn er af Skarsgård, að Joe þar sem hún liggur slösuð í húsasundi eftir að hafa verið barin til óbóta. Hann fer með hana heim í íbúð sína þar sem hann hjúkrar henni á meðan hann spyr hana út í líf hennar. Hann hlustar með athygli á það þegar hún fer yfir 8 mismunandi kafla í lífi sínu, sem er margskipt og þar sem margt fólk kemur við sögu.