„Kisan mín sagði að hátíðin hafi gengið vel,“ tísti Seth MacFarlane, kynnir Óskarsverðlaunahátíðarinnar í gær, mánudag á Twitter samskiptavefnum.
Óskarsverðlaunahátíðin fór fram aðfararnótt mánudagsins að íslenskum tíma og var sýnd beint á RÚV. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur voru á meðal 40,3 milljón sjónvarpsáhorfenda sem horfðu á, en í fyrra horfðu 39,3 milljón manns á hátíðina í sjónvarpinu.
Þrátt fyrir þennan árangur segist MacFarlane ekki ætla að endurtaka leikinn. Einn af fylgjendum hans á Twitter spurði hann hvort hann myndi taka verkefnið að sér aftur ef framleiðendur hefðu samband. MacFarlane svaraði: „Ekki séns. Gaman samt að hafa gert þetta.“