Það var svo sem vitað mál að nýjasta mynd Peter Jackson, The Hobbit: An Unexpected Journey, myndi ná mikilli aðsókn í kvikmyndahúsum, en myndin hefur nú komist í þann eftirsótta flokk að hafa halað inn yfir einn milljarð Bandaríkjadollara í aðsóknartekjur. Samkvæmt The Boxoffice mojo hefur myndin halað inn yfir 300 milljónum Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og yfir 700 milljónum dollara utan Bandaríkjanna en það tók hana einungis 77 daga að ná þessum frábæra árangri.
Samtals náði myndin 84,6 milljón dollurum á frumsýningarhelginni í Bandaríkjunum og því var nokkuð ljóst að myndin myndi verða farsæl þegar kom að aðsóknartekjum. Það eru því allar líkur á því að The Hobbit komist upp fyrir The Dark Knight og Alice in Wonderland en myndirnar sitja þessa stundina fyrir ofan The Hobbit en eru vitaskuld löngu hættar að skila aðsóknartekjum. Aftur á móti á The Hobbit langt í land þegar kemur að Avatar en hún situr lang efst á listanum þar sem hún skilaði á sínum tíma um 2,78 milljörðum dollara í aðsóknartekjur.
Hér má sjá nánari upplýsingar um kvikmyndina The Hobbit: An unexpected journey.

