Sam Mendes leikstýrir ekki næstu James Bond mynd

Þrátt fyrir að Sam Mendes leikstjóri Skyfall hafi sagt nýlega að það væru 75% líkur á að hann myndi leikstýra næstu Bond mynd, þeirri 24. í röðinni, þá hefur hann nú tilkynnt að hann muni ekki verða leikstjóri myndarinnar.

Það var kvikmyndatímaritið Empire sem greindi frá þessu fyrst.

„Það var mjög erfið ákvörðun að taka ekki tilboði þeirra Michael og Barbara um að leikstýra næstu Bond mynd,“ segir Mendes. „Það var ein besta lífsreynsla ævi minnar að leikstýra Skyfall, en ég hef skuldbundið mig til að leikstýra í leikhúsi og öðru, þar á meðal er ég að framleiða Kalla og sælgætisgerðina (Charlie And The Chocolate Factory) og Lér konung, og ég þurfti að fá að einbeita mér algjörlega að þeim verkefnum næsta árið og rúmlega það.“

Skyfall er orðin algjör metsölumynd um allan heim og hefur þénað meira en 1,1 milljarð Bandaríkjadala í miðasölunni, eða nálægt 140 milljarða íslenskra króna.

Mendes útilokar þó ekki að snúa aftur til Bond síðar: „Ég er upp með mér að fá að vera hluti af Bond fjölskyldunni,“ segir Mendes, „og ég vona að ég muni fá tækifæri til að vinna aftur með þeim einhverntímann í framtíðinni.“

Michael G. Wilson og Barbara Broccoli framleiðendur James Bond myndanna eru sömuleiðis tilbúin að vinna aftur með Mendes og segja í yfirlýsingu: „Við nutum þess að vinna með Sam, hann leikstýrði okkar vinsælustu Bond mynd frá upphafi, Skyfall. Við hefðum verið meira en til í að fá hann til að leikstýra næstu mynd, en virðum ákvörðun hans um að einbeita sér að öðrum verkefnum og vonumst til að geta unnið með honum síðar.“