Christoph Waltz og Amy Adams munu leika í nýjustu mynd Tim Burton sem hefur fengið nafnið Big Eyes og er byggð á sannsögulegum atburðum. Scott Alexander og Larry Karaszewski skrifa handritið og hafa þeir áður unnið með Burton við myndina Ed Wood með Johnny Depp í aðalhlutverki.
Waltz og Adams leika hjónin Walter og Margaret Keane sem koma listaverki í sölu af stóreygðri stúlku og var verkið fjöldaframleitt í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum og gerði hjónin að milljónamæringum. Walter fékk alla frægðina og dýrðina vegna þess að hann var snillingur í markaðsfræði og athyglissjúkur með eindæmum, á meðan stóð Margaret í skugga hans þó hún væri hinn sanni listamaður á bakvið verkið. Þegar þau hættu samvistum þá reyndi Margaret að fá sinn hlut og enduðu þau í réttarsal. Dómari kom með það ráð að þau skyldu bæði mála verkið upp á nýtt og þannig sanna sitt mál.
Kvikmyndin hefur verið á bið í nokkur ár og ætlaði Burton að sjá einungis um framleiðslu til að byrja með. Weinstein Company er framleiðandi myndarinnar og er framleiðsla í fullum gangi þessa dagana.
Waltz hefur tvisvar hlotið Óskarsverðlaun og bæði skiptin fyrir hlutverk í mynd Quentin Tarantino og verður því forvitnilegt að sjá hvernig hann leikur undir stjórn Burton.
Hægra megin má sjá verkið sem hjónin börðust um í réttarsal á sínum tíma.