Ian Fleming, höfundur bókanna um James Bond, ætlaði upphaflega að kalla aðalhetjuna James Secretan, samkvæmt fyrstu drögum af bókinni Casino Royale, sem nú eru komin fram í dagsljósið.
Hvort sem það var af því að „Secretan … James Secretan“ hljómaði ekki alveg eins vel og „Bond … James Bond“, eða aðrar ástæður lágu þar að baki, þá gaf Fleming þessa hugmynd á endanum upp á bátinn og lét aðalhetjuna heita James Bond í fyrstu útgáfunni af Casino Royal sem kom út árið 1953.
Sýnishorn frá árinu 1952 úr uppkasti bókarinnar var gert opinbert nú um helgina þegar haldið var upp á 60 ára afmæli bókarinnar.
Á einum stað í handritinu, þá kynnir leyniþjónustumaður frá bandarísku leyniþjónustunni CIA sig við 007 í spilavítinu í Hotel Splendide með því að segja: „Nafn mitt er Felix Leiter. Gaman að kynnast þér. “ Bond svarar: „Mitt nafn er Secretan. James Secretan.“ Búið er að krota yfir „Secretan“ með bláu bleki og orðið „Bond“ er komið þar í staðinn.
Frænka Fleming, Kate Grimond, sagði breska dagblaðinu The Sunday Times af mögulegum ástæðum fyrir því að Fleming skipti um nafn á persónunni:
„Ian hlýtur að hafa áttað sig á því að það myndi valda ruglingi ef hann léti aðeins vini og samstarfsmenn Bond kalla hann Bond, en notaði Secretan sem leyninafn þegar hann kynnti sig fyrir ókunnugum eða fólki sem hann vildi ekki að vissi að hann væri njósnari.“
Grimond segir að nafnið Secretan hafi væntanlega verið innblásið af svissneska 19. aldar heimspekingnum Charles Secrétan. „Ég hef enga sönnun fyrir því en ég veit að Ian var áhugamaður um heimspeki.“
Í uppkastinu þá er Miss Moneypenny upphaflega kölluð Miss Pettavel.
Lesið hér frásögn breska blaðsins The Independent af málinu.