Zachary Quinto, 35 ára, sem leikur Spock í Star Trek Into Darkness sem væntanleg er í bíó 17. maí nk., segir að það hafi verið óþægilegur hluti starfsins að þurfa að raka af sér þrjá fjórðu hluta augnabrúnanna og plokka þær svo reglulega til að viðhalda formi þeirra.
Eins og menn vita þá er Quinto með einhverjar voldugustu augnabrýr í bransanum, sem hefur gert verkið þeim mun erfiðara.
„Þetta var mjög sársaukafullt og þreytandi,“ segir Quinto.
Tveir förðunarsérfræðingar sáu um að breyta Quinto í Spock, þar á meðal settu þeir á hann hin frægu oddmjóu eyru. Breytingin tók „tvo tíma og 45 mínútur. Þannig að ef við þurftum að vera tilbúin kl. 6 um morguninn á tökustað þá þurfti ég að mæta í förðunarstólinn kl. 3 um nóttina.“
En ætli Quinto sé morgunmaður? „Nei, nei,“ segir Quinto brosandi í samtali við breska dagblaðið The Guardian. „Alls ekki.“
Í samtalinu viðurkennir hann að hafa í uppvextinum verið meira fyrir Star Wars en Star Trek. „Ég fæddist árið sem fyrsta Star Wars myndin var frumsýnd,“ segir Quinto. „Ég kynntist Star Trek bara í endursýningum og það náði ekki alveg til mín,“ bætir hann við en segir að síðar meir hafi hann kynnt sér náið upprunalegu sjónvarpsþættina frá sjöunda áratugnum og hrifist af þeim.
Frægt var þegar Quinto kom út úr skápnum árið 2011 í samtali við New York tímaritið, en þá var hann einn fárra Hollywood leikara sem höfðu leikið í stórmyndum til að gera það.
„Ég er stoltur af því að vera einn af leikurunum í þessum risa-sumarhasarmyndum ( e. major blockbuster summer action movies ) sem er opinberlega samkynhneigður.“
Sjáðu tvö atriði úr Star Trek Into Darkness hér fyrir neðan: