Rætt hefur verið við bresk-bandaríska leikstjórann Christopher Nolan, sem þekktur er fyrir The Dark Knight – Batman-þríleikinn, Inception, Memento og fleiri góðar myndir, um að leikstýra næstu James Bond mynd, þeirri 24. í röðinni.
Samkvæmt heimildum breska dagblaðsins The Daily Mail þá hafa óformlegar viðræður átt sér stað á milli Nolan, umboðsmanna hans og framleiðenda Bond myndanna, þeirra Barbara Broccoli og Michael G .Wilson.
Síðasta Bond mynd, Skyfall, sló öll met í miðasölunni, en þrátt fyrir það þurfti Sam Mendes leikstjóri hennar að hafna boði um að leikstýra næstu Bond mynd vegna anna á öðrum vettvangi.
Samkvæmt grein blaðsins er Nolan aðdáandi James Bond.
Vitnað er í Mendes í fréttinni þar sem kemur fram að undirbúningur undir tökur að næstu mynd myndi taka 18 mánuði, og síðan myndu tökur taka sex mánuði þar á eftir, og ljóst er að undirbúningur þarf að fara að hefjast þar sem framleiðendur vilja ekki láta líða of langt á milli mynda.


