Eftir misheppnaða tilraun til að starta nýrri seríu af Superman myndum árið 2006, þá er Ofurmennið, ættað frá plánetunni Krypton, loksins búið að taka flugið fyrir alvöru í bíóhúsum í Bandaríkjunum og um allan heim. Nýjasta myndin um Superman, Man of Steel, í leikstjórn Zack Snyder og framleidd af Christopher Nolan, þénaði samkvæmt áætlunum 113,1 milljón Bandaríkjadala nú um helgina í Bandaríkjunum, og 125,1 milljón alls frá því á fimmtudaginn.
Myndin sló nýtt met um helgina, en hún er nú orðin mest sótta júnímynd, á frumsýningarhelgi, allra tíma ( myndir sem frumsýndar hafa verið í júní ) , og sló þar met sem Toy Story 3 setti árið 2010, en hún þénaði 110,3 milljónir dala.
Tekjur Man of Steel um helgina í Bandaríkjunum eru um 25 milljónum dala hærri en menn höfðu spáð, sem sýnir að gerð framhaldsmyndar, eins og Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið tilkynnti um í síðustu viku, og við sögðum frá hér á kvikmyndir.is, á fullan rétt á sér. Man of Steel var frumýnd á fimmtudaginn í Bandaríkjunum og hefur þénað 125,1 milljón ef sá dagur er talinn með.
Sérfræðingar telja að þessar aðsóknartölur gefi framleiðendum myndarinnar næga ástæðu til að byrja strax að gera þríleik úr Superman.
„Allar tekjur umfram 100 milljónir dala þýða að serían er komin aftur,“ sagði Jeff Bock hjá Exhibitor Relations.
Aðsóknin á myndina er mun meiri en á síðustu mynd, Superman Returns frá árinu 2006 í leikstjórn Bryan Singer, en sú mynd olli vonbrigðum, enda var framhald ekki gert. Myndin kostaði 270 milljónir dala í framleiðslu og þénaði 200 milljónir alls í bíó í Bandaríkjunum.
Af öðrum myndum er það að segja að mynd gamanleikarans Seth Rogen, This is the End, náði mjög góðum árangri í miðasölunni og þénaði 20,5 milljónir dala, sem var meira en sérfræðingar höfðu spá, og var önnur aðsóknarmest um helgina.
Now you See Me gengur einnig vel í Bandaríkjunum og var í þriðja sæti nú um helgina með 10,3 milljónir dala í tekjur.
Fast & Furious 6 er í fjórða sæti með 9,4 milljónir dala og hrollvekjan The Purge í fimmta með 8,2 milljónir dala í tekjur.
Man of Steel verður frumsýnd á Íslandi á miðvikudaginn næsta, 19. júní.