Fyrr á árinu gáfu forsvarsmenn tölvuleiksins World of Warcraft aðdáendum smá von um að kvikmynd yrði að raunveruleika.
Warner Bros staðfesti þessar sögusagnir á Comic-Con hátíðinni sem fer fram í San Diego. Kvikmyndin hefur fengið titilinn Warcraft og er í framleiðslu Warner Bros. Duncan Jones mun fara með leikstjórn og hefur hann áður gert myndir á borð við Moon og Source Code. Warner Bros sýndi brot úr prufu fyrir kvikmyndina á Comic-Con fyrir aðdáendur.
„Stríðsmaður reikar eftir tómri eyðimörk, með sverð á bakinu. Himinninn er grænn og þakinn dökkum skýjum og eldingum. Stríðsmaðurinn tekur eftir brynju sem liggur í sandinum og krýpur á hné, í sömu andrá tekur hann upp sverðið sitt og ber því í brynjuna, líkt og hann sé að kalla á einhvern. Stríðsmaðurinn snýr sér við og sér þar grænt tröll haldandi á risastórum hamri. Stríðsmaðurinn og tröllið horfa á hvorn annan og byrja að breytast, um leið og þeir eru að fara að rekast á hvorn annan þá kemur titillinn á myndinni „Warcraft“.“ var haft eftir einum sem var viðstaddur sýningu á prufuatriði myndarinnar.
Framleiðsla á myndinni hefst í haust og er áætlað að frumsýna myndina árið 2015.