Í nýlegu viðtali við sjónvarpsstöðina Fox news, þegar hún var að kynna nýjustu kvikmynd sína, spennu-geðtryllinn Dark Tourist, sem er sjálfstæð framleiðsla, sagði kvikmyndastjarnan Melanie Griffith, sem þekkt er fyrir leik sinn í myndinni Working Girl m.a., að „Nú á tímum eru flest handrit b—vað drasl, heimskuleg og yfirborðsleg.“
„Ég fer aldrei í bíó lengur af því að það er ekkert að sjá,“ bætti hún við.
Griffith harmaði hve handritin sem hún og eiginmaður hennar, Antonio Banderas, fá til yfirlestrar, eru léleg ( hún tjáði sig þó ekki um Expendables 3 sem Banderas réði sig í nú nýverið ). Sjálf segist hún reyndar ekki fá mikið af handritum lengur til yfirlestrar, en hún lesi handrit sem Banderas fái.
Griffith, sem er 56 ára gömul, sagði einnig að hún væri undrandi yfir núverandi viðhorfi sínu gagnvart Hollywood, sem hefði breyst frá því hún var á þrítugs og fertugsaldri, en þá heyrði hún leikkonur gjarnan „röfla yfir því að fá ekki lengur neitt að gera þegar þær yrðu fimmtugar …Nú skil ég hvað þær voru að tala um.“
Dark Tourist verður frumsýnd nú á föstudaginn í nokkrum vel völdum kvikmyndahúsum, og verður einnig í boði á VOD í Bandaríkjunum.