Framleiðendur kvikmyndarinnar Warcraft, sem kvikmyndafyrirtækin Legendary Pictures og Atlas Entertainment ætla að gera upp úr tölvuleiknum vinsæla World Of Warcraft eru nú í óða önn að leita að leikurum í myndina. Samkvæmt heimildum Deadline vefjarins eru efstir á óskalista framleiðenda leikararnir Paul Dano, sem leikur í Prisoners, vinsælustu myndinni í Bandaríkjunum um nýliðna helgi, Travis Frimmel, sem leikur í sjónvarpsþáttunum Vikings á History Channel sjónvarpsstöðinni, Anson Mount, sem leikur í sjónvarpsþáttunum Hell on Wheels og Anton Yelchin úr Star Trek. Paula Patton úr 2 Guns, á einnig í viðræðum sem og Colin Farrell, en honum hefur verið boðið eitt af aðalhlutverkunum.
Leikstjóri myndarinnar verður Duncan Jones. Tökur eiga að hefjast í janúar nk. Charles Leavitt skrifar handritið.
Tölvuleikurinn á sér stað í einskonar miðaldaumhverfi þar sem leikmenn stjórna manngervingum ( avatar ) sem berjast m.a. við skrímsli, ófreskjur, uppvakninga, varúlfa og álfa. Tímaferðalög og nýir heimar úti í geimnum koma einnig við sögu.
Um er að ræða eitt stærsta verkefni Legendary fyrirtækisins nú um stundir.