Leikarinn, tónlistarmaðurinn og American Idol dómarinn Harry Connick Jr. mun leika aðalhlutverk í nýjum prufuþætti fyrir sjónvarpsþátt sem handritshöfundar Late Show eru að skrifa fyrir ABC sjónvarpsstöðina.
Um er að ræða fjölskyldugamanþátt með tónlistarívafi þar sem Connick leikur farsælan skemmtikraft og einhleypan föður sem tekur sér frí frá vinnu til að styrkja samband sitt við unglingsdóttur sína.
Ef þátturinn fer alla leið og verður að seríu þá yrði þetta fyrsta fasta hlutverk Connick Jr. í sjónvarpsþætti og myndi þýða endurkomu hjá honum í gamanefni, en hann lék reglulega gestahlutverk í gamanþáttunum Will & Grace á NBC sjónvarpsstöðinni.

