Svifbrettið fræga sem sást fyrst í öðrum hluta kvikmyndaseríunnar Back To The Future er komið á markað, eða svona næstum því. Brettakappinn Tony Hawk og fleiri frægir hafa tekið þátt í kynningarmyndbandi á vegum HUVrTech sem er sagt vera aðalframleiðandi svifbrettanna.
Í myndbandinu sjáum við m.a. þegar leikarinn Christopher Lloyd réttir Tony Hawk brettið góða og eftir það er sýnt frá mismunandi einstaklingum sem prófa brettið. Myndbandið er því miður sett á svið og halda margir því fram að um sé að ræða auglýsingaherferð fyrir nýja kvikmynd byggða á þríleiknum.
Leikfanga- og skóframleiðendur hafa þó þegar tekið við sér og elt tískustefnur úr kvikmyndunum um Marty og Emmett og verður sífellt vinsælla að hanna raunverulegar eftirlíkingar af skóm og ýmsum hlutum úr myndunum.