Gamanleikarinn Tracy Morgan hefur höfðað mál gegn verslunarkeðjunni Walmart vegna slyss sem má rekja til ökumanns flutningabíls á vegum þeirra, en málið snýst um að Walmart sé að láta ökumenn sína vinna of langar vaktir.
Leikarinn slasaðist alvarlega í síðasta mánuði eftir að hafa lent í árekstri, þar sem nokkrir slösuðust og einn lét lífið. Morgan var farþegi í svokallaðri limósínurútu þegar slysið varð, en rútunni hvolfdi í slysinu. Auk rútunnar lentu tveir stórir flutningabílar og jeppi í árekstrinum auk tveggja annarra bíla.
„Herra Morgan hefur hlotið varanlegan andlegan og líkamlegan skaða vegna þess að fyrirtækið er kærulaust hvað varðar ökumenn sína,“ segir í tilkynningu frá lögmanni Morgan. Verslunarkeðjan hefur lítið tjáð sig um málið en segist harma slysið og að það sé verið að rannsaka hvað olli því.
Morgan er þekktur fyrir leik sinn í þáttunum Saturday Night Live, auk þess sem hann var einn aðalleikara í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum 30 Rock.