Graðfolaatriðið vel undirbúið

Heimildarmynd um gerð hinnar margverðlaunuðu íslensku kvikmyndar Hross í oss, sem meðal annars fékk Edduna og Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, var frumsýnd í Bíó Paradís í dag að viðstöddum mörgum helstu aðstandendum myndarinnar.

davíð alexander croerMyndin er eftir Davíð Alexander Corno, klippara Hross í oss, og er skipt í nokkra hluta og fjallað er m.a. sérstaklega um fjármögnunarferli myndarinnar, þá áskorun sem það var að vinna með hestana í myndinni, um viðtökur áhorfenda, tæknibrellur, og rætt er ítarlega við Benedikt Erlingsson leikstjóra um forsögu og almennt um gerð myndarinnar, og Friðrik Þór Friðriksson framleiðanda, og ýmsa aðra sem komu við sögu.

Á meðal þess sem sérstaklega var fjallað um í myndinni var upptaka á atriðinu á plakati myndarinnar þegar graðhestur fer upp á meri sem Ingvar E. Sigurðsson situr upp á, en Ingvar  segir í myndinni að upphaflega hafi staðgengill átt að sitja hestinn á meðan á þessu stóð, þó svo að hann sjálfur hafi allan tímann búist við því að þurfa að leika í atriðinu.

Þá sagði tökumaður myndarinnar, Bergsteinn Björgúlfsson að atriðið hafi verið tekið upp með sjö tökuvélum enda áttu menn ekki von á því að fá fleiri en eitt tækifæri til að taka upp atriðið. Einnig hafi þau legið yfir tíðahring meranna til að hitta á rétta tímann til að atriðið heppnaðist, og tvær aðrar merar hefðu verið tiltækar, ef fyrsta tilraun hefði ekki heppnast. Allt hafi hinsvegar gengið eins og í sögu þegar á hólminn var komið, en eins og Ingvar segir í myndinni, þá var það hálf vandræðalegt að sitja merina á meðan á öllu þessu stóð.

Gerður var góður rómur að myndinni, enda kemur þar margt fróðlegt í ljós og gefur góða innsýn gerð myndarinnar og gerð íslenskra bíómynda almennt.

Áhugasamir geta séð myndina sem aukaefni á DVD útgáfu Hrossa í oss.

zsýning

Boðið var upp á léttar veitingar að sýningu lokinni.

2015-02-21 15.11.59

Myndin hefur hlotið á þriðja tug verðlauna og hluti þeirra var til sýnis í Bíó Paradís.