Flestir fóru á sjöundu Fast & Furious-myndina hér á landi yfir síðastliðna páskahelgi og má þar með sanni segja að myndin sé páskamyndin í ár. Alls fóru rúmlega 6.500 landsmenn á hana í bíó yfir dagana 3.-5. apríl. Myndin hefur einnig notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum og halaði hún inn 147.2 m. bandaríkjadala yfir opnunarhelgina.
Furious 7 er nýjasta myndin í þessari sívinsælu og hraðskreiðu seríu og tekur hún upp þráðinn þar sem frá var horfið. Eftir að hafa sigrast á glæpamanninum Owen Shaw hafa þeir Dom Toretto og Brian O‘Connor ákveðið að láta gott heita og lifa rólega lífinu sem þeir þrá að lifa. Málin flækjast þegar eldri bróðir Owens, Ian Shaw ákveður að elta Toretto og hans teymi uppi í hefndarskyni. Þá er ekki eftir neinu að bíða, öðru en því að kalla liðið aftur saman og finna þennan Ian Shaw áður en hann finnur þau á undan.
Í öðru sæti listans situr teiknimyndin Home. Þegar seinheppna geimveran Ó kemur til jarðar og þarf að flýja undan sínum eigin félögum hittir hann á flóttanum hina ráðagóðu Tátilju sem sjálf leitar móður sinnar sem rænt var af geimverum. Myndin er byggð á vinsælli barnabók eftir Adam Rex um geimveruna Ó sem er svo mikill klaufi og einstaklega óheppinn að hann fellur í ónáð félaga sinna sem komnir eru til Jarðar til að yfirtaka hana og breyta öllu skipulagi hennar sér í hag. Ó neyðist til að leggja á flótta og hittir þá og vingast við Tátilju og geðgóða köttinn hennar sem líkar strax vel við hann.
Will Ferrell og Kevin Hart eru svo ekki langt undan í þriðja sæti listans í gamanmyndinni Get Hard. Ferrell leikur milljónamæringinn James King sem þrátt fyrir allan auðinn er frekar lítill bógur inn við beinið. Þegar James er handtekinn fyrir fjársvik og síðan dæmdur til 10 ára vistar í hinu rammgerða San Quentin-fangelsi þá leitar hann til eina mannsins sem hann ályktar að hafi verið í fangelsi, en hann heitir Darnell Lewis og vinnur á bílaþvottastöðinni þar sem James lætur þvo bílinn sinn. Þegar James býður honum góða greiðslu fyrir þjálfunina tekur Darnell tilboðinu, ákveðinn í að gera sitt allra besta þrátt fyrir að vita ekkert hvað hann er að tala um.