Phil Lord og Christopher Miller munu leikstýra Star Wars-hliðarmynd (spin-off) þar sem Han Solo verður aðalsöguhetjan.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Disney. Orðrómur hafði verið uppi um að myndin væri í undirbúningi. Hún er væntanleg í bíó í maí 2018.
Lord og Miller eru þekktastir fyrir teiknimyndina vinsælu The Lego Movie sem kom út í fyrra.
Lawrence Kasdan, sem skrifaði handrit The Empire Strikes Back og Return of the Jedi, verður handritshöfundur.
Myndin fjallar um ævi Han Solo, sem Harrison Ford túlkaði í fyrstu þremur Stjörnustríðsmyndunum, áður en hann hittir Luke Skywalker og Leiu prinsessu.
„Við lofum að taka áhættu og vera með ferska nálgun fyrir áhorfendur. Við lofum því einnig að vera trúir þessum persónum sem skipta okkur svo miklu máli,“ sagði í tilkynningunni.