Íslensk- franski kvikmyndagerðarmaðurinn Sólveig Anspach, er látin, 54 ára að aldri. Banamein hennar var brjóstakrabbamein.
Sólveig leikstýrði 14 myndum á ferlinum, bæði heimildarmyndum og leiknum myndum. Sólveig var heiðruð á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2001 fyrir myndina Made in the USA, sem fjallaði um aftöku í Texas. Mynd hennar Queen of Montreuil vann áhorfendaverðlaunin á RIFF kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Auk þess var hún valin besti leikstjórinn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ghent árið 1999 fyrir myndina Haut les Coeurs!
Sólveig hafði nýlokið tökum á nýjustu bíómynd sinni, Sundáhrifin (L’effet aquatique), á Íslandi og í Frakklandi þar sem hún bjó lengst af ævinnar, eins og fram kemur á vefnum klapptré.
„Hún var frábær kvikmyndagerðarmaður, kær samstarfsmaður og vinur,“ sagði framkvæmdastjóri hjá WGA West, Howard Rodman, um Sólveigu á Deadline vefnum, en þar má lesa frekari eftirmæli um Sólveigu.