Óæðri ókindur á Blu

Jaws framhöldin eru loksins að skila sér á Blu-ray.

jaws2brd„Jaws 2“ (1978) er að öllu leyti prýðileg mynd þó hún nái engan veginn sömu hæðum og forverinn. Hún skartar þó Roy Scheider í aðalhlutverki en leikarinn snéri aftur til að koma sér út úr samningi við Universal Pictures og hann var í skammarkróknum eftir að hafa hætt við „The Deer Hunter“ (1978) tveimur vikum áður en tökur hófust.

Annar skæður hákarl kemur sér fyrir á ströndum Amity og Brody fógeti (Scheider) leitar hann uppi. Þó svo að töluvert vanti upp á að myndin nái að halda sér á floti á meginlandinu þá nær hún töluverðu flugi í vatninu og „hákarlaatriðin“ eru vel af hendi leyst. Franski leikstjórinn Jeannot Szwarg er enginn Spielberg en hann nær upp góðri sumar stemningu á eyjunni Amity og framkallar sæmilega spennu þegar óvarkár ungmenni finna sig í hættu í sjónum.

Jaws-2-Cable

Meðal aukaefnis á disknum er áhugaverð heimildarmynd um gerð myndarinnar en Szwarg lenti ekki síður í vandræðum með vélræna hákarlinn en Spielberg nokkrum árum áður.

jaws33dbrd„Jaws 3“ (1983) flytur sögusviðið frá Amity til meginlandsins og gerist í skemmtigarði sem minnir að öllu leyti á Sea World. Hvorki meira né minna en 35 feta hákarl læðist inn í vatnagarðinn og veldur talsverðum usla.

Þessi þykir frekar slæm og þökk sé slæmum þrívíddarbrellum þá eldist hún hræðilega. Hún skartar þó þungavigtarleikurunum Dennis Quaid og Louis Gossett Jr. í aðalhlutverkum og var þetta fyrsta mynd þess síðarnefnda eftir að hafa hreppt Óskarsstyttuna fyrir „An Officer and A Gentleman“ (1982) og var hann árið eftir tilnefndur til Razzie verðlauna.

Blu-ray útgáfan inniheldur þrívíddarútgáfu myndarinnar ásamt þeirri hefðbundnu.

jawstherevengebrd„Jaws: The Revenge“ (1987) er margfalt verri en þriðja myndin en samt mun skemmtilegri þar sem hún kemst í þann vafasama hóp að teljast svo slæm að hún er í raun frekar góð. Íslenska þýðingin var, að mig minnir, „Hákarl í hefndarhug“, en hún lýsir myndinni fullkomnlega.

Ekkja Brody‘s lögreglustjóra, Ellen (Lorraine Gary), er fullviss um að hákarlinn sem drap son hennar hafi viljandi elt hann uppi sökum fjandskapar við fjölskylduna. Og viti menn! Það er hárrétt hjá henni þar sem sami hákarlinn eltir hana uppi til Hawaii þegar hún skreppur í frí til að takast á við sorgina.

Breski gæðaleikarinn Michael Caine gat ekki tekið á móti Óskarsstyttunni fyrir leik sinn í „Hannah and Her Sisters“ (1986) af því að hann var upptekinn við tökur á þessari mynd. Eitt af mörgum drepfyndnum atriðum í myndinni sýnir Caine stökkva upp úr sjónum rennblautur en sekúndu síðar er hann alveg þurr. Þetta á sér í raun einfalda skýringu en tökumaðurinn þurfti að skipta um sjónarhorn og á þeim tíma sem það tók að endurstilla allt þá þornaði Caine upp í öllum hitanum. Samt alveg magnað að láta atriðið fljóta svona í endanlegu útgáfuna.

jaws caine

Nú geta unnendur „Jaws“ framhaldanna hlakkað til að njóta myndanna í háskerpu en útgáfudagur á þeim öllum er 14. júní.